Meginmarkmið forskóla námsins er að undirbúa nemendur sem best undir hljóðfæranám.
Hvar fer kennslan fram?
Forskólakennslan fer fram í Ingunnarskóla, Ártúnsskóla og Árbæjarskóla á venjulegum skólatíma, þ.e.a.s. þá sækja börn námið úr kennslustundum eða strax að loknum skóla. Kennt er einu sinni í viku í 50 mínútur í senn. Nemendur eru nokkur saman í hóp.
Fyrir hverja er námið?
Forskóli er æskilegt nám fyrir nemendur í fyrsta og öðrum bekk grunnskóla en ekki nauðsyn. Forskóli 1 miðast við börn í fyrsta bekk grunnskóla. Forskóli 2 er framhald af Forskóla 1 og miðast við börn í öðrum bekk í grunnskóla.
Uppbygging náms
Uppistaða námsins er tónlistariðkun með ýmsum aðferðum s.s. söng, hreyfingu, slagverksleik, hlustun, tónlistarleikjum og sköpun. Börnin kynnast hinum ýmsu hljóðfærum, læra grunnatriðin í tónfræði svo sem nótur og ryþma og læra að spila á ukulele. Einnig er lögð mikil áhersla á söng. Andrúmsloftið er létt og skemmtilegt og þörfum hvers og eins nemanda sinnt af bestu getu. Í forskólanum er lítið sem ekkert heimanám og ekki er gerð krafa um að börnin eigi ukulele heldur kemur kennarinn með hljóðfærin í tíma. Forskólahóparnir taka þátt í jóla- og vortónleikum skólans.
Forskólakennari er Jóhanna Elísa Skúladóttir